Hoppa yfir valmynd
9. október 2020

Ísland aðili að samevrópskum yfirlýsingum á vettvangi ÖSE

Húsnæði fastaráðs ÖSE í Vín. - myndStagiaireMGIMO / CC BY-SA (https://creativecommons.org/licenses/by-sa/4.0)

Síðustu daga hefur Ísland gerst aðili að nokkrum mikilvægum samevrópskum yfirlýsingum á vettvangi fastaráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og lýst stuðningi við aðild Kýpur að samningnum um opna lofthelgi á endurskoðunarráðstefnu samningsins.

Á fastaráðsfundi ÖSE í gær voru árásir á almenna borgara í Ngorno-Karabakh fordæmdar í yfirlýsingu ESB, sem Ísland gerðist aðili að. Þess var krafist, að Azerar og Armenar gerðu vopnahlé og færu að kröfum utanríkisráðherra Minsk-hópsins. Ísland gerðist einnig aðili að yfirlýsingu ESB til stuðnings fjölmiðlum í Hvíta-Rússlandi á fastaráðsfundinum, en þar eru stöðugar árásir stjórnvalda á skoðana- og málfrelsi fordæmdar. Skorað var á stjórnvöld að standa við ÖSE-skuldbindingar sínar um frelsi fjölmiðla og öryggi fjölmiðlafólks.

Í tilefni af 18. alþjóðadegi gegn dauðarefsingu, sem verður á morgun, var Ísland meðflytjandi að yfirlýsingu nokkra ríkja, þar sem m. a. er skorað á Bandaríkin og Hvíta-Rússland að afnema dauðarefsingu. Á fastaráðsfundinum gerðist Ísland einnig aðili að yfirlýsingu ESB um stöðu mála í Moldóvu, þar sem lýst er áhyggjum yfir stöðu mannréttinda, skoðana- og samkomufrelsis og fjölmiðlafrelsis í Transnistríu. Umræðan var að undirlagi Móldóvu, sem sakar yfirvöld í Tiraspol, höfuðstað aðskilnaðarhéraðsins, um að setja upp ólöglegar varðstöðvar. Þá gerðist Ísland aðili að yfirlýsingu ESB, þar sem m. a. því er fagnað, að vopnahlé stríðandi aðila í Úkraínu hefur haldist nokkuð vel frá því samið var um það í lok júlí sl.  

Fastafulltrúi Íslands lýsti stuðningi við aðild Kýpur að samningnum um opna lofthelgi á lokadegi endurskoðunarráðstefnu samningsins í dag. Var Ísland meðflytjandi í yfirlýsingu rúmlega  30 aðildarríkja um stuðning við aðild Kýpur. Tyrkland hefur beitt neitunarvaldi gegn aðildinni síðan 2002.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum