Hoppa yfir valmynd
29.11. 2017 Utanríkisráðuneytið

Góður árangur af samstarfsverkefni Íslands og Úganda í Buikwe héraði

BornbuikweStarfsmenn íslenska sendiráðsins í Kampala lögðu nýlega land undir fót og fóru í vettvangsferð í öll þorp, skóla og heilsugæslustöðvar í Buikwe héraði, þar sem unnið hefur verið að verkþáttum og uppbyggingu á síðustu þremur árum í héraðsþróunarverkefni sem Íslendingar vinna með héraðsstjórninni. Það voru æði margir staðir sem voru heimsóttir, því verkefnin hafa komið víða við og uppbyggingin margþætt:

  • Byggðar 15 vatnsveitur með borholum, dæluhúsum og dreifikerfi með samtals 51 AQTap vatnspóstum í 16 þorpum;
  • Grafnir 15 brunnar með handælum og tæknibúnaður til vatnstöku settur upp við 17 vatnslindir;
  • Byggðar 137 salernisblokkir við skóla, heilsugæslustöðvar og til almennra nota með aðskildri aðstöðu fyrir karla og konur og sérstöku hreinlætisherbergi fyrir konur;
  • Byggðar 19 kennslubyggingar við 10 grunnskóla með samtals 57 kennslustofum og 11 skólaskrifstofum;
  • Byggð 13 kennarahús með samtals 39 kennaraíbúðum;
  • Unnið að endurbótum á 15 starfsmannahúsum með 24 íbúðim fyrir kennara;
  • Byggð 18 skólaeldhús með orkusparandi eldstæðum og nægu geymslurými fyrir matvæli.
Hérðasverkefni með fiskisamfélögum
Buikwe hérað er um 50 km austan við höfuðborgina Kampala og liggur þjóðbrautin frá Rúanda til strandar í Kenía um héraðið. Buikwe er frjósamt og landbúnaður helsta atvinnugreinin, en þar eru einnig tvö stærstu raforkuver landsins á ánni Níl og talsverður iðnaður hefur byggst upp í nágrenni við þau. Fiskveiðar og fiskverkun eru einnig mikilvægar atvinnugreinar, enda liggur héraðið að Viktoríuvatni að sunnanverðu. Íbúafjöldi héraðsins er um 440.000 og þar af búa 50.000 manns í 39 fiskiþorpum við strendur vatnsins.

Árið 2014 var undirritað samkomulag milli stjórnvalda á Íslandi og í Úganda, sem beinir íslenskri þróunaraðstoð við Úganda að margvíslegri uppbyggingu og bættum lífskjörum í  fiskisamfélögunum í Buikwe héraði (Buikwe District Fishing Community Development Programme eða BDFCDP). Framkvæmd verkefnastoðarinnar hófst fyrir um það bil þremur árum með vatns- og hreinlætisverkefin í 19 fiskiþorpum og síðan menntaverkefin í grunn- og framhaldsskólum á sama svæði sem hófst fyrir einu og hálfu ári. Framkvæmdir hafa gengið vel og verulegur hluti af þeirri uppbyggingu sem áætluð var er nú vel á veg komin eða þegar lokið - og komin í fulla notkun.

ArnibuikwwAð sögn Árna Helgasonar verkefnisstjóra í sendiráði Íslands í Kampala er yfirmarkmið verkefnisins að stuðla að betri lífskjörum fyrir íbúana í fátækum fiskiþorpum Buikwe héraðs, en hann segir þau víðast hvar bágborin og í ýmsu tilliti verri en gengur og gerist í landinu.  "Við undirbúning verkefnisins var mikið verk unnið við að greina stöðuna og ákveða hvar ætti að bera fyrst niður. Af nógu var að taka því í fiskiþorpunum vantar nær allt grunnvirki og samfélagslega þjónustu sem sjálfsagt þykir að sé til staðar í hverju samfélagi. Eftir ítarlegt samtal við héraðsyfirvöld og fólkið í fiskiþorpunum var ljóst að í forgangi væri að bæta aðgengi að neysluhæfu vatni, bæta almenna hreinlætisaðstöðu fyrir þorpsbúa, byggja upp kennsluaðstöðu í grunnskólum á svæðinu og standa fyrir ýmiskonar þjálfun og fræðslu hjá héraðs- og skólayfirvöldum til að tryggja eðlilegan rekstur og viðhald á mannvirkjum og betri þjónustu á sviði menntunar og vatns- og hreinlætismála," segir Árni.

Vatns- og hreinlætisverkefnið lengst komið
Vatns- og hreinlætisverkefnið í Buikwe er lengst á veg komið og verklegum framkvæmdum fyrsta áfanga að mestu lokið. Allar 137 salernisblokkirnar eru þegar komnar í fulla notkun og á næstu vikum verða vatnsveitur í 16 þorpum komnar í notkun. Margvíslegt þjálfunar- og fræðslustarf verður unnið með samfélögunum  á næstu misserum, sem vonandi mun tryggja sjálfbærni og varanleika í rekstri í framtíðinni.
Menntaverkefninu er skemmra á veg komið en þó er talsverður hluti af byggingaframkvæmdum þegar lokið og kennslublokkir með 57 kennslustofum og 11 skólaskrifstofum þegar komnar í notkun, bygging 12 kennarahúsa með 36 íbúðum og skólaeldhúsa við 14 grunnskóla á lokastigi.  Auk nauðsynlegra innviða, sem lýst er hér að ofan er einnig í gangi margvísleg starfsþjálfun í þágu skólastjórnenda og kennara í skólunum, efling foreldrafélaga og stofnun þorpsráða, sem munu veita skólastjórnendum aðhald og vinna með þeim að frekari eflingu skólastarfsins.

ByggingBuikweNkombwe

"Nkombwe í vesturhluta Buikwe er gott dæmi um fiskiþorp sem hefur notið stuðnings frá BDFCDP verkefninu og árangurinn þar sýnilegur," segir Árni. Íbúafjöldi í Nkobwe eru tæplega 1.200 manns og flestir hafa lífsviðurværi sitt af störfum tengdum fiskveiðum og verkun auk ræktunar til heimabrúks. Í þorpinu er einn grunnskóli, sem í upphafi var með um 150 nemendur, en er í dag með nær 600 nemendur, og er hann einn  af 14 skólum sem valdir voru fyrir víðtækan stuðning frá menntaverkefninu.  Nú þegar hafa verið byggðar tvær kennslublokkir með samtals sex fullbúnum kennslustofum, skrifstofuhúsnæði fyrir skólastjórnendur og kennara og bygging íbúðarblokkar með íbúðum fyrir allt að sex kennara er á lokastigi. Nýtt skólaeldhús mun komast í gagnið á næstu vikum og skólinn mun síðan tengjast vatnsveitunni sem byggð var fyrir þorpið."

Að sögn Árna leynir sér ekki af samtölum við þorpsbúa, skólastjórnendur, kennara og nemendur að stuðningur BDFCDP verkefnisins hefur breytt miklu fyrir þetta litla samfélag. "Áður sóttu þorpsbúar óhreint vatn til heimilisnota í Viktoríuvatn en hafa nú aðgang að hreinu vatni á vægu verði úr AQtap vatnspóst á þremur stöðum í þorpinu. Áður var engin almenn hreinlætisaðstaða til staðar, en nú eru fjórar salernisblokkir, sem allir hafa aðgang að.

Í Nkombwe skólanum voru áður um 150 nemendur og öll aðstaða til kennslu afar bágborin. Skortur var á kennsluhúnæði og kennslugögnum, og erfiðlega gekk að ráða kennara við skólann vegna þess hversu afskekkt Nkobwe þorpið er og allur aðbúnaðar fyrir kennara var lélegur.

Í dag er skólinn fullmannaður ungum og frískum kennurum, sem greinilega hafa áhuga á sínu starfi og geta nú búið á staðnum í nýjum kennaraíbúðum með sínar fjölskyldur. Aðstaða til kennslu hefur stórbatnað með tilkomu nýrra kennslubygginga og allir nemendur fá nú skólabækur í öllum aðalfögum til eigin nota, í stað þess að vera allt að 10 nemendur um hverja skólabók. Nemendafjöldi við skólann hefur fjórfaldast á framkvæmdatíma verkefnisins, því foreldrar í þorpinu eru nú mun áfjáðari um að halda börnum sínum í skólanum og foreldrar í nærliggjandi þorpum sækast eftir því að senda sín börn þangað sem aðstaða til kennslu er nú mun betri en gengur og gerist," segir Árni.

Þótt fyrsta áfanga vatns- og hreinlætisverkefnisins sé nú nær lokið er þegar hafinn undirbúningur að öðrum áfanga. Áformað er að halda áfram á sömu braut og byggja vatnsveitur og almenna hreinlætisaðstöðu í þeim 20 fiskiþorpum sem ekki voru valin í fyrsta áfanga. Menntahluta verkefnisins er um það bil hálfnaður, en að sögn Árna er þegar farið að huga að frekari uppbyggingu við grunnskólana sem þjóna fiskisamfélögunum í Buikwe héraði að honum loknum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum