Hoppa yfir valmynd
29.03. 2017

Sérstök verkefnastjórn fimm ráðuneyta og Hagstofunnar skipuð vegna Heimsmarkmiðanna

UN-SDG-Metsa-GroupSkipuð verður verkefnastjórn til þess að halda utan um greiningu, innleiðingu og kynningu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu forsætisráðherra þessa efnis á fundi í síðustu viku.

Að verkefnastjórninni standa forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, velferðarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Hagstofa Íslands. Til að tryggja aðkomu allra ráðuneyta verður jafnframt myndaður sérstakur tengiliðahópur verkefnastjórnar og þeirra ráðuneyta sem ekki eiga þar fulltrúa.
Meginhlutverk verkefnastjórnar er að ljúka við greiningarvinnu og rita stöðuskýrslu þar sem meðal annars verða lagðar fram tillögur að forgangsröðun markmiða til ríkisstjórnar. Samkvæmt frétt á vef forsætisráðuneytisins skal verkefnastjórn jafnframt gera tillögur um framtíðarskipulag og verklag í tengslum við innleiðingu markmiðanna hér á landi. Þá skal hún sérstaklega horfa til þess hvernig samhæfa megi innleiðingu Heimsmarkmiðanna og stefnu og áætlanagerð Stjórnarráðsins í samræmi við ný lög um opinber fjármál. 

Einnig mun verkefnastjórnin huga að því hvernig vinna megi að innleiðingu markmiða í samstarfi við háskólasamfélagið, atvinnulífið og samfélagið í heild sinni og hafa yfirsýn yfir og sinna alþjóðlegu samstarfi um Heimsmarkmiðin. Ríkisstjórnin samþykkti að verja fimmtán milljónum króna í verkefnið af ráðstöfunarfé sínu.

Nánar á vef forsætisráðuneytis

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum