Hoppa yfir valmynd
14.12. 2016

Moldin og Heimsmarkmiðin

https://youtu.be/403sT9CGRl0

Ár hvert er 5. desember tileinkaður moldinni og þá er tækifærið notað til að vekja athygli á mikilvægi hennar. Þrátt fyrir okkar tæknivædda heim þá er afkoma okkar háð vistkerfum jarðar og þar með moldinni. Við fáum fæðu, klæði, orku, hreint vatn og margt fleira frá vistkerfunum. Þessu virðumst við gjörn að gleyma þrátt fyrir að einn af stóru umhverfis-samningum Sameinuðu þjóðanna, Eyðimerkursamningurinn vinni gegn land- og jarðvegseyðingu og hafi gert það frá undirritun samningsins árið 1992.  

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað árið 2013 að tileinka 5. desember ár hvert moldinni og árið 2015 var jafnframt alþjóðlegt ár jarðvegs hjá Sameinuðu þjóðunum. Eitt af 17 Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er svo tileinkað verndun og sjálfbærri nýtingu landvistkerfa (markmið 15) en þar er moldin í lykilhlutverki. Þetta markmið er hjartans mál Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Markmið 15: VERNDA, ENDURHEIMTA OG STUÐLA AÐ SJÁLFBÆRRI NÝTINGU LANDVISTKERFA, SJÁLFBÆRRI STJÓRNUN SKÓGA, BERJAST GEGN EYÐIMERKURMYNDUN, STÖÐVA OG SNÚA VIÐ JARÐVEGSEYÐINGU OG SPORNA VIÐ HNIGNUN LÍFFRÆÐILEGS FJÖLBREYTILEIKA

En hvað er svona einstakt við moldina? Jú, hún geymir og miðlar vatni og næringarefnum til plantna og er því afar mikilvæg gróðri, til að mynda matjurtum og fóðurplöntum. Fæðuframleiðsla okkar á þurrlendi byggir því á því að við höfum frjósama mold til ræktunar. Moldin hreinsar einnig vatn og er því mikilvæg til að viðhalda og tryggja góð vatnsgæði. Enn fremur geymir moldin meira kolefni en andrúmsloftið og allur gróður á landi samanlagt. Breytingar á magni þess hefur áhrif á loftslagið. Þannig minnkar kolefnisforðinn í moldinni við landhnignun og jarðvegsrof og eykur á hlýnun jarðar, en um fjórðungur af auknu kolefni í andrúmslofti er vegna landhnignunar og landeyðingar af manna völdum. Landhnignun leiðir einnig til minnkandi frjósemi moldarinnar og skertrar getu til að miðla og geyma vatn og næringarefni. Land sem hefur tapað frjósemi sinni gefur af sér minni afurðir. Árlega tapast  um 12 milljónir hektara af frjósömu landi - rúmlega stærð Íslands - vegna rangra aðferða við ræktun, skógareyðingar og ofnýtingar, svo sem ofbeitar. Jarðvegur myndast mjög hægt og því er mikilvægt að sporna við landeyðingu og minnkaðri frjósemi moldarinnar með landbótum og vistheimt.

Með því að vinna að Heimsmarkmiði 15, stöðva landeyðingu, vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu landvistkerfa, vinnum við einnig að því að ná mörgum hinna Heimsmarkmiðanna, s.s. að útrýma fátækt (1), tryggja fæðuöryggi (2) og nægt hreint vatn (6), draga úr loftslagsbreytingum (13) og vernda hafið (14). Jafnframt stuðlum við að sjálfbærri efnahagslegri hagsæld (8) þar sem stór hluti hagkerfisins byggir á nýtingu náttúruauðlinda eins og moldarinnar.  

Eyðimerkursamningurinn

Word soil day 2016/ SÞ

Skýrsla um Ástand jarðvegsauðlindar heimsins sem gefin var út í tilefni af ári jarðvegs 2015/ FAO  
Mikilvægi jarðvegauðlindarinnar og landeyðing á Íslandi/ Landgræðsla ríkisins kvikmyndabrot

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum